Hallormsstaður
Um Hallormsstað

Hallormsstaður var fyrrum prestssetur og kirkjustaður. Byggðahverfi hefur myndast á Hallormsstað í tengslum við skólahald, ferðaþjónustu og starfsemi Skógræktar ríkisins. Hallormsstaðarskógur er stærstur skóga á landinu. Skógræktarstöð var stofnsett á Hallormsstað árið 1903 og skógurinn friðaður 1905.

Merkilegt trjásafn er í Hallormsstaðarskógi. Göngustígur liggur um safnið og eru þar listsýningar og ýmsar uppákomur, meðal annars Skógardagurinn mikli, en þá er m.a. haldin Íslandsmeistaramót í skógarhöggi.   Atlavík, innarlega í skóginum, er vinsæll áningarstaður ferðamanna.

 

Hallormsstaðarskógur er víðáttumesti skógur landsins. Hann liggur meðfram Lagarfljóti (Leginum) að austanverðu.

Árið 1903 hófust þar tilraunir með plöntun erlendra trjáa en stórfelld ræktun hófst fyrst eftir 1950. Nú hafa verið gróðursettar í Hallormsstaðarskógi um 50 tegundir erlendra trjáa frá 177 mismunandi stöðum. Elsti lerkilundurinn var gróðursettur árið 1938 og heitir Guttormslundur, kenndur við Guttorm Pálsson sem var skógarvörður á Hallormsstað í 46 ár.

Atlavík er innarlega í skóginum en við hana er vinsælt tjaldsvæði. Einnig er nýtt tjaldsvæði í Höfðavík, en þar er góð aðstaða fyrir húsbíla og fellihýsi.

Í Hallormsstaðarskógi hefur nú fjölmargt verið gert til að gera ferðafólki svæðið aðgengilegt, m.a. hafa verið lagðir göngustígar um skóginn auk þess sem opnað hefur verið trjásafn í gróðrarstöðinni Mörkinni sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara á ferð um Austurland.

 

 
© 2017. Hallormsstaður. Hönnun: Austurnet ehf