Góð ráð

Fyrir það fyrsta skaltu gefa þér góðan tíma til að heimasækja Hengifoss og nágrenni hans. Það er svo margt fleira áhugavert í grenndinni. Þú getur m.a. kynnt þér það hér á þessari heimasíðu.

Sumarganga

Yfir hásumarið (júlí) getur verið mjög mannmargt við Hengifoss en vanalega er það fyrst og fremst bílastæðið sem að er troðfullt. Ef þú finnur ekki stæði til að leggja í er tilvalið að keyra aðeins lengra inn í dalinn og líta í Snæfellsstofu á Skriðuklaustri (5km) og sjá til hvort að ekki hafi rýmkast á bílastæðinu þegar þú kemur til baka.

Hengifoss og gljúfur hans snýr í suðaustur svo að ef þú vilt sjá fossinn í sólinni þá þarftu að ganga upp að honum að morgni. Í júní og júlí er vanalega nóg vatn í ánni til að fæða fossinn en í ágúst kemur fyrir að áin minnkar svo mikið að fossinn verður sem mjóir strengir, en hæðin er auðvitað alltaf hin sama (128m).

Í maí og snemma í júni er yfirleitt mikil bráðnun á snjó af hálendinu og þá geta smásprænur sem þvera gönguleiðina upp að Hengifoss stundum verið vatnsmiklar. Þær getur orðið að vaða og þá þarf að fara gætilega. Sömuleiðis er að vori til bleyta í sumum stígum og hætta á jarðskriðum. Hið sama getur verið uppi á teningnum að hausti þegar rignir mikið. Vanalega þarf hins vegar ekki að vaða neitt til að nálgast fossinn nema ef halda á inn í gljúfrið sem umlykur hann.

Vetrarganga

Æ fleiri leggja leið sína að Hengifossi að vetrarlagi. En þá er vissara að fara varlega. Stígar og slóðir fyllast þá oft af ís og verða hálir. Þá er er rétt að halda sig fjarri gilbörmum á leiðinni því að ísing á grjóti getur leynt á sér. Og að vetrarlagi er aldrei öruggt að fara inn í gljúfrið við Hengifossinn sjálfan því að ís og grjót geta fallið úr veggjum þess.

Fyrirtæki á svæðinu bjóða upp á ferðir með leiðsögn að Hengifossi jafnt vetur sem sumar. Við getum t.a.m. mælt með wildboys.is fyrir örugga gönguferð að vetri.