Hvernig kemst ég?

Egilsstaðir eru næsta þéttbýli við Hengifoss (35km), kaupstaður sem stendur við hringveginn (veg nr. 1). Frá Egilsstöðum er hægt að velja um tvær leiðir því að Hengifoss er við syðri enda Lagarfljóts og margir sem kjósa að keyra svokallaðan Lagarfljótshring í leiðinni. Annars er annað hvort hægt að fara upp vestan við Lagarfljót (um Fell) eða austan við (um Hallormsstað). Vegalengdin er nánast hin sama, um 35 km.

Ef þú velur að fara upp vestan megin máttu búast við malarvegi hluta leiðarinnar. Þú beygir út af hringveginum á hæðinni ofan við Lagarfljótsbrúnna í Fellabæ. Þar er vegur rn. 931 merktur og skilti sem benda á Fljótsdal og Skriðuklaustur.

Leiðin austan við Lagarfljót er vinsælli, sennilega því að þá er ekið gegnum Hallormsstaðaskóg og gott útsýni inn að Snæfelli. Á vegamótunum við N1 á Egilsstöðum þar sem vegir nr. 1 og nr. 92 mætast fylgdirðu hringveginum nr. 1 allt að Úlfsstöðum eða Grímsá. Þar beygir hringvegurinn nr. 1 en þú heldur beint áfram eftir vegi nr. 931. 23 km síðar kemurðu að T-vegamótum sem eru rétt hjá Hengifossi. Skömmu áður ferðu yfir langa brú og af henni áttu að sjá fossinn sjálfan. Á þessum vegamótum beygirðu til vinstri en skiltin sýna að í þá átt séu Snæfell og Skriðuklaustur. Bílastæðið fyrir Hengifoss er aðeins hálfan km frá vegamótunum.

Frá bílastæðinu eru aðeins 5 km eftir vegi 933 inn í Snæfellsstofu, gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Skriðuklaustri þar sem einnig er menningarsetur, minjastaður og gott veitingahús. Sömuleiðis eru aðeins 5 km í Hallormsstað þar sem eru frábærar gönguleiðir, hótel, veitingastaðir og meira að segja ísbúð.