Kort

Frá bílastæðinu byrjarðu á því að ganga upp tröppur. Síðan tekur við fremur álíðandi malarborinn stígur næsta kílómetrann. Þegar þú ert u.þ.b. hálfnaður upp, um 1,2 km frá bílastæðinu sérðu Litlanesfoss með sína fallegu stuðlabergsumgjörð. Þar liggja slóðir niður í gilið neðan við fossinn en þeir eru brattir og í lausri möl svo að það er vissara að fara varlega ef þú ætlar þér niður í gilið.

Næsta kílómetrann er greinileg slóð og sumsstaðar slóðir sem fætur gesta hafa skorið í landið síðustu áratugina. Þeir liggja sumstaðar þétt vil gilbarminn þar sem er hætta á að falla fram af. Þess vegna þarf að gæta varúðar og sérstaklega ef börn eru með í för.

Þegar þú ferð að nálgast Hengifoss máttu búast við því, sérstaklega að vori, að þurfa að vaða yfir smálæki vegna leysingavatns. Um 2,2 km frá bílastæðinu kemur að uppýsingaskilti þar sem þú hefur gott útsýni á fossinn og gljúfrið umhverfis hann. Ef þig fýsir að fara lengra skaltu fara með gætni því að ganga inn í gljúfrið sjálft getur verið varasöm, sérstaklega að vetrarlagi. Þá getur slóðin sem liggur áfram verið sleip í rigningu að sumri til. Einnig þarf að vaða yfir ána sjálfa ef þú ætlar þér alla leið að rótum fossins og þá þarf að meta hversu mikið vatn er í ánni.

Að komast allt að fossinum þar sem hann hefur á árþúsundum búið sér til skeifulaga hvelfingu er magnað. Þar bergmálar hávaðinn frá fossinum í stórmerkilegum, fagurlitum jarðlögum.

Auðveldast er að ganga til baka sömu leið, þ.e. sunnan við ána. En ef þú hefur þegar vaðið yfir ána geturðu alveg eins farið niður norðan við hana. Slóðir þeim megin eru illgreinilegar. Ef þú ert alger fjallageit geturðu gengið allt upp á brúnina þar sem Hengifoss fellur fram af og farið yfir ána þar fyrir ofan. En þá skaltu gæta þess að gljúfrið er gríðardjúpt og ekki fara nálægt börmum þess. Þessi leið er ekki merkt og slóðir ógreinilegar.

Það eru til fjöldamörg GPS hnit fyrir gönguleiðina að Hengifossi sem finna má á vefnum. Til að mynda geturðu nýtt þér þessa sem er á wikiloc.com