Þrír dagar í faðmi fljótsins


Hér er tillaga að þremur yndislegum dögum í nágrenni við Hengifoss.

Dagur 1

Morgunganga í Hallormsstaðaskógi. Horft eftir Orminum í Atlavík og hugrakkir róa út á Fljót. Steinbogi yfir Klifá skoðaður á leið í Skriðuklaustur. Fræðst um Vatnajökulsþjóðgarð í Snæfellsstofu og gengið um rústir miðaldaklausturs. Hús skáldsins heimsótt og farið í gómsætt hádegishlaðborð hjá Klausturkaffi. Haldið upp á Fljótsdalsheiði og Hrafnkelssaga rifjuð upp við söguskilti á leið að tröllauknum stíflum Kárahnjúkavirkjunar við Hafrahvammagljúfur. Áð í Laugarfelli til að skola af sér ferðarykið í heitum laugum og gist þar ef þreytan segir til sín. Í byggð bíður rómað hlaðborð á Hótel Hallormsstað og varðeldur á strönd Fljótsins.

Dagur 2

Vaknað við svanasöng í Laugarfelli, þrastaklið í skóginum, óviðjafnanlegt útsýni á Hafursá eða við rætur Tröllkonustígs á Fljótsdalsgrund. Farið í gönguferð að Hengifossi og stuðlabergs- umgjörð Litlanesfoss skoðuð. Hin fræga Valþjófsstaðahurð í kirkjunni leiðir hugann að forynjum. Skyggnst eftir skrýtnum fyrirbærum hjá Hrafnkelsstöðum. Ef ekkert bærir á sér má hlusta eftir álfasöng í Kirkjuhamri eða teygja úr sér á blágresisbala í Ranaskógi. Kaffihlaðborð á Skriðuklaustri.

Dagur 3

Farið í fjórhjólaferð eða hestaferð um Hallormsstaðaskóg. Hádegisverðar notið í skóginum. Síðan má velja um að ganga að Strútsfossi, krækja í silung í Kelduá til að grilla eða fara á slóðir Ormsins. Ef hálendið heillar með hreindýr og svani er stutt að renna inn í Snæfellsskála eða fara að jöklinum með Fjallamönnum. Ganga á Snæfell með Wildboys væri toppurinn á dvölinni í faðmi Fljótsins.